Sigrandi sumarljós - Hjörtur Magni Jóhannsson

„Hvað er það sem gleður okkur á hverju ári þegar sólin fer að láta sjá sig og birtan sigrar myrkrið, hægt og hljótt? Við sjáum bleikan bjarma í austri og minnkandi tungl í vestri er við ökum til vinnu að morgni. Það er svo miklu léttara að fara fram úr þegar fuglasöngurinn í garðinum vekur okkur en kötturinn verður órólegur. Við fögnum komandi vori og betri tíð með útiveru og gleði“. Með þessum orðum hóf eiginkona mín Ebba Margrét einn af sínum pistlum nú þegar vorið bankar á dyrnar.
Það er engin tilviljun að páskahátíðina, þessa sigurhátíð ljóss og lífs, skuli bera upp á í byrjun vors og boða komu sumarsins. Upphaflega var páskahátíðin forna einmitt vorhátíð sem fagnaði endurnýjun lífsins í náttúrunni. Við fögnum því í lok hvers vetrar að við megum aftur njóta birtunnar, yls vors og sumars. Við fögnum, hvert og eitt, á okkar eigin forsendum, hver með sínum hætti, við fögnum því að myrkrið sem oft virðist ætla að hylja okkur alveg, að það hefur samt sem áður ekki síðasta orðið.
Ljósið hefur sigrað myrkrið og okkur hverju og einu og mannkyninu öllu hefur verið boðin hlutdeild í þeim mikla sigri. Sá sigur er endanlegur. Þó eru enn háðar orustur, máttur myrkursins er enn mikill í þessum heimi. Jú, nú á föstunni er okkur ætlað að huga að böli heimsins og að öllum þeim hættum sem að okkur steðja og þær eru í dag, æði margar. Víða er mikið böl, ótrúleg grimmd, hrópandi þjáning og samfélagslegt óréttlæti víða. Og rétt eins og nú í lok mars mánaðar er enn allra veðra von og skyndilega getur dregið yfir sólu og kólnað. En þrátt fyrir það, þrátt fyrir það, vitum við fyrir víst að sumarið mun koma með birtu sína og yl.
Þetta sigrandi sumarljós sem við nú á föstunni horfum fram til er Kristur upprisinn. Þetta sigrandi sumarljós var samkvæmt okkar trúarhefð kveikt fyrir 2000 árum og logar enn í hjörtum allra manna sem vilja lifa í kærleika, réttkæti og miskunnsemi. Kærleiksljósið lýsir jafnt á dimmri nóttu sem degi, jafnt sumar sem vetur. Upprisa Krists boðar það sumar sem aldrei tekur enda.
Kirkjustofnunin hér á landi hefur allt of lengi dvalið þjáningar og sorgar megin við krossinn í stað þess að færa sig, upprisu megin við krossinn. Jú, þótt almenningur fasti alls ekki, þá hljóma Passíusálmar Hallgríms Péturssonar, enn á RUV og það er vel; Upp, upp, mín sál og allt mitt geð, upp mitt hjarta og rómur með, hugur og tunga hjálpi til. Herrans pínu ég minnast vil. Við hér í Fríkirkjunni munum lesa upp passíusálmana á föstudaginn langa og er öllum frjálst að koma, setjast niður og hugleiða.
En það er gott að vita að dimma og myrkur föstunnar hefur ekki síðasta orðið, heldur hefur kærleiksljósið sigrað. Dveljum ekki hér við gröfina. Hann, er farinn á undan. Hlustum á fuglasönginn og fögnum komandi vori.

Пікірлер